Færsluflokkur: Bloggar

Siggi bloggar - 3á3

Þá er æfingunum lokið og einungis eftir Allstar leikurinn og úrslitaleikurinn í 3 á 3 keppninni. Sú keppni hófst í gær og stelpurnar stóðu sig vel að vanda. Fyrsti leikurinn sem ég náði að fylgjast með var á milli liða Dagbjartar og  Möggu. Lið Dagbjartar fór á kostum og vann leikinn 28:4 . Hennar lið komst í 6:0-6:2-16:2-16:4-28:4. Dagbjört skoraði 8 stig og lagði upp enn fleiri og Magga skoraði 2. Dagbjört vex með hverjum degi sem líður og berst eins og ljón inná vellinum. Virkileg skemmtun að horfa á hana í leik.
Næst sá ég hluta af leik hjá Bergdísi á móti 3 strákum. Einn af þeim var rússneskur lurkur ,sem gengur undir nafninu Voldemort hjá okkur, og stelpurnar stelpurnar eru lítt hrifnar af honum. Skil það vel hann er frekar ógeðfelldur að sjá. En Bergdís R. ,dyggilega studd af tveimur smá stubbum sem ná henni í mitti, gerði sér lítið fyrir og rúllaði yfir liðið. Hún skoraði grimmt á milli þess sem stubbarnir röðuðu niður þriggjastiga skotum. Frábærir náungar. Bergdís sýndi að hún á hvergi heima nema á meðal þeirra bestu.
Leikur nr. 2 hjá Bergdísi var á móti náunga sem er sennilega besti leikmaður búðanna. Hann þurfti virkilega að hafa fyrir hlutunum gegn frábærri vörn hennar. En dómarinn í þessum leik eyðilagði fullt af frábærum tilþrifum bæði hennar og hins náungans með því að dæma á allar blokkeringar. Þær voru minnst 4 hjá Bergdísi. Það réð þó ekki úrslitum í leiknum heldur hitt að bæði fór allt niður hjá hinu liðinu meira að segja eitt skot sem okkar dama blokkaði en boltinn skrúfaðist utan á hringnum í spjaldið og oní en minnsta kosti 3 skot skrúfuðust uppúr hjá okkar liði. Leikurinn endaði 29:14 fyrir hina.2:0-4:2-9:2-9:4-11:4-11:6- 16:6-16:10-21:10-21:14-29:14.Þrátt fyrir mikinn mun voru allir hundsvekktir. Okkar stelpa skoraði 10 stig í þessum leik. Sigrún G. og Dagbjört komust svo í undanúrslit.
Ég fylgdist með leiknum hjá Dagbjörtu sem var á móti þeim sem sló út Bergdísi. Okkar lið lenti undir í byrjun 8:0 náðu að minnka muninn í 9:8 og jafna svo 11:11. Þá tók drengurinn sig til og skoraði 5 þriggjastiga körfur í röð og staðan orðin 26:11 á einni og hálfri mínútu. Leikurinn endaði síðan 27:18. Þessi leikur og hvernig Rússinn lék sýndi vel hversu frábær varnarmaður Bergdís Ragnars er.
Sigrún Gabríela tapaði í hinum undanúrslitaleiknum en því miður hef ég ekki tölurnar úr honum. Við eigum því engan leikmann í úrslitum því miður.
Á morgun verður síðan Allstar leikurinn og verður spennandi að sjá hvernig okkar stelpur standa í samanburði við jafnaldra sína frá Rússlandi.
Í kvöld fórum við út að borða. Hundsuðum kræsingarnar í mötuneytinu og fórum á veitingastað í dæmigerðum serbneskum fjallakofa. Frábær staður að hluta hlaðinn úr grjóti og stór eldstó á miðju gólfi salarins. Maturinn var mörgum klössum ofar en það sem okkur hefur verið boðið hingað til en samt höfum við fengið margt betra. Fín tilbreyting, þó ekki væri annað en að breyta aðeins um umhverfi. Stelpurnar eru allar ánægðar þó þær sem ekki eru leikfærar séu frekar leiðar yfir því að missa af allri keppni. En þetta eru allt frábærar stelpur sem eiga eftir að gera fína hluti í framtíðinni og fá fullt af öðrum tækifærum.
Bestu kveðjur frá Kopaonik.
Siggi Sig og allar stelpurnar.

Siggi bloggar: Tíðindalaust af austurvígstöðvunum

Jæja, þá eru bara 3 dagar eftir og allir orðnir spenntir fyrir heimför. Flestar stelpnanna eru búnar að fá nóg af dvölinni hér og eru held ég ekkert á leiðinni að stofna "hillbillyfjölskyldu" hér í Serbíu. Þó sér maður stundum örlítinn hnjáskjálfta þegar einn og einn ungur maður gengur hjá. Hópurinn er aðeins farinn að þynnast, stelpurnar hafa verið að heltast úr lestinni ein og ein. Ekkert alvarlegt sem betur fer. Við fáum ennþá sama úrvalsfæðið. Við sátum fund með aðalmönnum búðanna í gærkvöldi og þar vorum við sannfærð um að þetta væri allt saman frábært. Maturinn góður, aðstaðan frábær, hótelið gott og síðast en ekki síst kepptust þeir um að mæra hvorn annan. Það sem er rétt í þessu er að þjálfarinn kann sitt fag uppá 10 en annað er skelfilegt hérna. En ekki hafa áhyggjur við gætum þess að stelpurnar fái næga næringu og hvíld. Hitinn er alveg að kæfa okkur fararstjórana þessa dagana hvað þá stelpurnar. En þær passa að  drekka nóg. Anna Björk tók þær allar í nudd í gær, það hafði fín áhrif.
Ég setti einhverjar myndir inná bloggið áðan. Við erum soldið löt við að setja þær inn vegna þess að downstream eða upstream tíminn er svo lélegur hérna.(hvað sem það þýðir) En allavega lýsir það sér þannig að óhemju tími fer í að setja myndirnar inn.

Við látum heyra frá okkur fljótlega aftur
Bestu kveðjur til allra heima.
Siggi Sig og stelpurnar.


Siggi bloggar. leiðbeiningar fyrir spítalasöguna.

Mér gekk afleitlega að koma spítalasogunni inn á bloggið. Týndist tvisvar eftir að að ég var búinn að slá hana inn og í þriðja skiptið kom ég henni til skila en þá fyrstu línurnar svo ég setti hana inn einu sinni enn þannig að sagan öll er undir nafninu "Spítalasagan mikla"

vona að mér sé fyrirgefið.

Siggi sig.


Siggi bloggar: Spítalasagan mikla.

Smurolíumettuð bensínstækja, hvinur og hávaði eins og í þotu í flugtaki og skjálfti og hristingur eins og á malarvegi við Trékillisvík. Þeir sem hafa átt gamla Lödu Sport vita hverju ég er að lýsa, nefnilega bílferð í túndrujepplingnum ástsæla. Þetta byrjaði allt með aukaæfingu hjá Söru þar sem  hún meiddi sig á tá og læknir búðanna sendi hana í myndatöku til að fullvissa sig um að hún væri óbrotin. Þá var náð í einkadriver Yubac. Það er samanrekinn stubbur, hertur af baráttu við rússneskt stýri á hlikkjóttum fjallvegum Serbíu, grár eins og austfjarðaþokan trúlega af reykingum og langsetum í eiturbrækjunni í Lödunni, burstaklipptur og með derhúfu sem var á kollinn á honum eins og henni hefði verið fleigt á snaga. Sjúkrahúsið var í klukkutíma fjarlægð (serbneskur klukkutími sem var í þessu tilfelli 2). þegar þangað kom tók við flakk á milli álma sjúkrahússins. Við byrjuðum á slysamóttökunni, vorum send þaðan um 5mínútna gang í aðra álmu. Þar fékk Sara hjólastól með loftlausum dekkjum. Hann kom í góðar þarfir því við þurftum að þræða ganga og rangala spítalans næstu 4-5 mínútur. Sú ganga hófst í tiltölulega nýrri byggingu og endaði í hrörlegasta hjalli sem ég hef komið inní. Og þar var röntgentækið. Já röntgentækið sem ég held þeir hafi keypt af sjúkrahúsinu í Keflavík 1950 þegar það var endurnýjað þar. Myndin var tekin og við tók næsta bið. Þá biðum við á gangi þar sem á aðra höndina voru læknastofur en á hina reykherbergi læknanna og skrifstofa.Þið hafið heyrt að listdansararnir á Goldfinger séu að fjármagna læknanám. Ég held að það sé rétt, því tvær drottningar sem stjákluðu um gangana á pinnahælum og stífmálaðar reyndust vera læknar. En þetta var útúrdúr.
Þar sem við sátum og biðum eftir Dr. Jeckill byrtist Mr. Hide, kom svífandi útúr reykkompunni. Skítugur, sveittur með hrokkið, sítt, illa greitt og enn verr þrifið hár. Reif af okkur myndina og henti henni í okkur aftur og sagði okkur að bíða lengur. Þá er komið að þætti bílstjórans, sem hafði lítið haft sig í frammi. Hann tók myndina bar hana að ljóstýru, sem hann fann á ganginum og  skoðaði hana eins og alvanur sérfræðingur. Næst þegar einhver kom útaf stofunni þar sem allt var að gerast vippaði hann sér inn fyrir við lítinn fögnuð annarra á biðstofunni en við vorum komin að. Inn á stofunni var hjúkrunarkona sem sá um vinnuna og læknir sem leit út eins og Maradonna þegar hann var feitastur sitjandi í  alltof litlum stól. Hann v ar í gallabuxum og bláum bol rennblautur af svita frá toppi til táar. Eftir miklar pælingar fram og til baka kom loksins úrskurðurinn , bílstjórinn hefði getað sagt okkur um leið og hann leit á myndina, hún var óbrotin, einungis einhver tognun. Pappírsvinnan tók hálftíma en við biðum úti á meðan. Kl.00:05 lögðum við af stað hrist, (ekki hrærð) ærð að af sársaukakveini freðmýrastálsins og deyfð af smurolíu og bensínbrækjunni. Á löngum beinum kafla niður í móti á heimleiðinni náði tryllitækið 90 km hraða við gríðarlegan fögnuð heimamanna. Við komumst í háttinn kl hálfþrjú í nótt.
Þeir sem eiga leið hingað seinna meir ættu að forðast í lengstu lög heimsóknir á spítala í Serbíu.

Bestu kveðjur

Sara og Siggi , reynslunni ríkari.


Siggi bloggar: Spítalasagan stóra.

Yubac. Það er samanrekinn stubbur, hertur af baráttu við rússneskt stýri á hlikkjóttum fjallvegum Serbíu, grárl eins og austfjarðaþokan trúlega af reykingum og langsetum í eiturbrækjunni í Lödunni, burstaklipptur og með derhúfu sem var á kollinn á honum eins og henni hefði verið fleigt á snaga. Sjúkrahúsið var í klukkutíma fjarlægð (serbneskur klukkutími sem var í þessu tilfelli 2). þegar þangað kom tók við flakk á milli álma sjúkrahússins. Við byrjuðum á slysamóttökunni, vorum send þaðan um 5mínútna gang í aðra álmu. Þar fékk Sara hjólastól með loftlausum dekkjum. Hann kom í góðar þarfir því við þurftum að þræða ganga og rangala spítalans næstu 4-5 mínútur. Sú ganga hófst í tiltölulega nýrri byggingu og endaði í hrörlegasta hjalli sem ég hef komið inní. Og þar var röntgentækið. Já röntgentækið sem ég held þeir hafi keypt af sjúkrahúsinu í Keflavík 1950 þegar það var endurnýjað þar. Myndin var tekin og við tók næsta bið. Þá biðum við á gangi þar sem á aðra höndina voru læknastofur en á hina reykherbergi læknanna og skrifstofa.Þið hafið heyrt að listdansararnir á Goldfinger séu að fjármagna læknanám. Ég held að það sé rétt, því tvær drottningar sem stjákluðu um gangana á pinnahælum og stífmálaðar reyndust vera læknar. En þetta var útúrdúr.
Þar sem við sátum og biðum eftir Dr. Jeckill byrtist Mr. Hide, kom svífandi útúr reykkompunni. Skítugur, sveittur með hrokkið, sítt, illa greitt og enn verr þrifið hár. Reif af okkur myndina og henti henni í okkur aftur og sagði okkur að bíða lengur. Þá er komið að þætti bílstjórans, sem hafði lítið haft sig í frammi. Hann tók myndina bar hana að ljóstýru, sem hann fann á ganginum og  skoðaði hana eins og alvanur sérfræðingur. Næst þegar einhver kom útaf stofunni þar sem allt var að gerast vippaði hann sér inn fyrir við lítinn fögnuð annarra á biðstofunni en við vorum komin að. Inn á stofunni var hjúkrunarkona sem sá um vinnuna og læknir sem leit út eins og Maradonna þegar hann var feitastur sitjandi í  alltof litlum stól. Hann var í gallabuxum og bláum bol rennblautur af svita frá toppi til táar. Eftir miklar pælingar fram og til baka kom loksins úrskurðurinn , bílstjórinn hefði getað sagt okkur um leið og hann leit á myndina, hún var óbrotin, einungis einhver tognun. Pappírsvinnan tók hálftíma en við biðum úti á meðan. Kl.00:05 lögðum við af stað hrist, (ekki hrærð) ærð að af sársaukakveini freðmýrastálsins og deyfð af smurolíu og bensínbrækjunni. Á löngum beinum kafla niður í móti á heimleiðinni náði tryllitækið 90 km hraða við gríðarlegan fögnuð heimamanna. Við komumst í háttinn kl hálfþrjú í nótt.
Þeir sem eiga leið hingað seinna meir ættu að forðast í lengstu lög heimsóknir á spítala í Serbíu.

Bestu kveðjur

Sara og Siggi , reynslunni ríkari.


Siggi bloggar.

Ekki gerðist margt í fyrradag annað en að Guðbjörg og Telma komust í úrslit í skotkeppni. Frábært hjá þeim. Langþráð sundferð varð að veruleika í gær, loksins. Ég hallast helst að því að mjólkurbílsstjórinn sé með báðar hendur bundnar í öðrum verkum því ekkert bólar á nýjum byrgðum af jógúrti. Kannski panta kaupmenn hér ekki það sem selst strax. Stærsta búðin hér minnir mann á það sem maður heyrði af Sovétríkjunum, t.d. er hveitihillan 3m á lengd og á henni voru 4 hveitipokar daginn eftir voru þeir 3 og búið að jafna bilið á milli þeirra uppá nýtt. Það hljóp á snærið hjá Önnu Björk einn daginn þegar hún var að kvarta (eins og alltaf) yfir klósettpappírsleysi. Bandarískur þjálfari sem var með 5star hópinn heyrði til og gaf henni 2 rúllur vegna þess að hann var á heimleið. Anna Heppna verður hún kölluð hér eftir.

Veðrið hér og á Íslandi er ótrúlega líkt. Skýjað eina stundina og svalt en steikjandi sól þá næstu. í þessum orðum tööluðum komu Sara , Selma og Anna ,bandarísk-serbnesk stelpa sem er með okkur, með hvolp sem þær fundu. og þið getið rétt ímyndað ykkur hvað hann var sætur .....og svangur.Það er mikið spáð í leiðir til að koma öllum reiðileysiskvikindum heim til Íslands. Ég er að hugsa um að hafa samband við Karl bretaprins til að gá hvort hann reddar þessu ekki. Hann er yfir einhverjum sjóði til verndar dýrum, þess vegna sleppir hann alltaf laxinum þegar hann hefur pínt hann nóg.

Nú er ég kominn langt út fyrir efnið.

Æfingarnar ganga vel en samt verða þær meira meira krefjandi. Það kom þjálfaranum verulega á óvart hversu vel stelpurnar eru þjálfaðar. Síðustu æfingar hafa farið í grundvallar hreyfingar í vörn. Það hefur vafist soldið fyrir þeim en skilar sér smátt og smátt. Ef þetta tollir í kollinum á þeim munum við eiga frábært lið í framtíðinni. Mikil þörf er á að byggja upp rétt hugarfar hjá stelpunum t.d. venja þær af því að segja "ég get þetta ekki" og minna þær á að æfingar eru til að gera hluti sem maður ræður ekki við þá stundina og til að gera mistök.

Bestu kveðjur frá okkur stelpunum.

Siggi Sig


Siggi bloggar- Kettlingasagan mikla.

Í fyrradag fundu stelpurnar kettlinga sem hafa sennilega verið í fæði í mötuneyti búðanna. Allavega voru þeir horaðri en allt sem horað er. Snarlega var slegið upp veislu, keypt mjólk og sardínudós sem litlu krílin hámuðu í sig brosandi út að eyrum. Orðið sætur var mikið notað þann daginn og strákarnir áttu ekki séns. Bjössi (á mjólkurbílnum) birtist og ég keypti fjórar jógúrt og Harpa tvær og núna bíðum við þess að kvennagullið ljóntrygga komi keyrandi með aðra hönd á stýri og kippu af eðaljógúrt í hinni.

Þrjár af stúlkunum þurftu að flytja sig um herbergi og þá uppgötvaðist sá leiðindaatburður að vatnsglasið- takið eftir vatnsglasIÐ í herberginu hafði brotnað en Harpa leysti málið snarlega og borgaði 100 kr. fyrir nýtt. Ég þori ekki fyrir mitt litla líf að kvarta yfir því innvolsið í klósettkassanum hjá mér er liðið undir lok.

Að kvöldi dagsins var vítaskotakeppni. Hún fór þannig fram að stelpurna tóku víti og þegar þær hittu úr fyrsta skoti var byrjað að telja og talið þar til þær klikkuðu á tveimur í röð. Lilja vann keppnina eftir bráðabana við rúmenska stelpu. Þær skoruðu báðar úr 14 vítum Sara varð svo í 3. sæti með 11 skot. Flott hjá þeim.

Lífið kemur sífellt á óvart. Við kvöldmatinn gerðist tvenn sem ég hélt ég ætti ekki eftir að upplifa. Hið fyrra að heyra "ó nei! það er pizza í matinn", hið síðara kom jafnvel enn meira á óvart. Nefnilega það að nokkrar stelpnanna tóku með sér afgangana til að geta borðað seinna. Ég segi nú bara svo má illu venjast að gott þyki.

Til stóð að fara hópferð til læknisins eftir matinn en áður en hún var farin hresstust allar það vel að sú ferð var slegin af. Gott mál.

Æfingarnar skila sér hægt en örugglega. Ég nýti hvert tækifæri til að segja stelpunum að þetta snúist allt um hraða, kraft og snerpu eins og þær sáu í All Star leiknum á Landsmótinu á Höfn. Eða Fallen Star "What ever".

Allir eru í góðum gír og fínu skapi með smá sveiflum ,eins og eðlilegt er, þrátt fyrir skrýtið fæði. Sólin er komin og hitinn fylgir með svo allt er á uppleið.

Við STELPURNAR biðjum allar að heilsa heim.

Siggi Sig and all the gérls.

PS

Morgunverðarseðillinn áðan.

Gamalt franskbrauð.

Smurostur

Lifrarkæfa

Flóuð mjólk og síðast en ekki síst klórvatn notað og ónotað.(te og vatn)


Siggi bloggar. 13. ágúst.

Allt gekk sinn vanagang í dag. Ekkert sérstakt komið uppá, einhver smávægileg meiðsli hér og þar en ekkert alvarlegt sem betur fer. Stelpurnar kveinka sér ekki lengur undan smá hnjaski. Maturinn var innan velsæmismarka í dag, loksins. Morgunmaturinn er samt skrýtinn og eina sem við fáum að drekka með honum er kranavatn sem bragðast eins og klórvatn og te sem bragðast einsog notað klórvatn. Góðu heilli bjargast þetta með pizzum og núna pönnukökum.

Stelpurnar taka gríðarlegum framförum en ég held ég geri engum grikk þegar ég segi að Dagbjört blómstri hreinlega. Æfingarnar eru margar eins og upprifjun á gömlum æfingum sem voru notaðar þegar við fararstjórarnir vorum í boltanum. (fyrir 5-6 árum :)

Strákarnir á svæðinu eru heillaðir af ljósu lokunum og prúðmannlegri framkomu stelpnanna og elta þær á röndum með grasið í skónum. Auk þess æfa þeir grimmt framburð á íslenskum nöfnum eins og Sigrún, Bergdís og Bergþóra.

Sumar af stelpunum bera sig betur en aðrar en innst inni held ég að þær hafi allar smá heimþrá  sem sýnir okkur að þetta eru heilbrigðar og fínar "gérls" eins og Sdravko þjálfari orðar það. Þetta er íslenski mátinn "Betra er að bera harm sinn í hljóð - en í braglausum óði" sagði Megas.

Bestu kveðjur heim frá öllum.

Siggi Sig.


Siggi bloggar.

4. dagur.

Æfingarnar hafa gengið vel hingað til og stelpurnar eru mjög móttækilegar fyrir öllu sem Strapo (þjálfarinn þeirra) hefur fram að færa. Rigningin sem Anna minntist á var alvöru rigning. Þið getið ímyndað ykkur skýfall heima og margfaldað svo nokkrum sinnum.

Stelpurnar spiluðu við serbneskar stelpur í dag og sterkara liðið okkar rúllaði yfir þær en það slakara var ívið veikar en það serbneska. En eitt vorum við fararstjórarnir sammála um, að ekkert okkar hefur séð stelpurnar spila jafnvel. Sóknin var hreifanleg , barátta í vörninni og svo tóku þær fast á móti nokkrum ótrúlega grófum stelpum. Í stuttu máli ótrúleg framför.

Allar stelpurnar kveinka sér yfir ótrúlegustu hlutum af og til, en eins og góðum fararstjórum sæmir hefur okkur tekist að ráða fram úr flestu ýmist með viðtalsmeðferð, áfallahjálp eða almennum yndislegheitum.

Flottar og góðar stelpur á ferðinni hérog góður andi í hópnum.

 við biðjum öll að heilsa.

Siggi Sig.

PS.   Gullmola ferðarinnar á Sigrún Gabríela, þegar æft var í samkomusalnum vegna rigningarinnar var ein hlaupaleiðin upp á svið. Áleiðinni upp á sviðið galaði hún "ég er með sviðsskrekk".


Sunnudagur 12. ágúst kl. 18.45

Heil og sæl öll heima,

Nú er að komast rútína á hlutina hjá okkur hér úti. Hún felst í því að vakna kl. 7.15, fara í morgunmat kl. 7.45, smakka matinn og borða eins mikið og hægt er, fara svo og kaupa sér jógúrt og brauð til viðbótar ásamt vatni fyrir æfinguna sem hefst klukkan 9. Eftir æfingu er svo farið að spila, versla, spjalla og hvíla fram að hádegismat. Þá er aftur smakkað....:-) og borðað eins og hægt er og svo er farið og bætt við pizzu, samlokum o.þ.h. Í hádeginu í dag borðuðum við bara nokkuð vel, enda góð súpa (sumar fengu sér tvisvar!!) og ágætis kartöflur með djúpsteiktu svínakjöti sem fór misvel í stúlkukindurnar.

Svo er aftur pása fram að seinni æfingunni. Í gær var reyndar aðeins breytt út af, þegar við fórum kl. 15 að horfa á einkaæfingu hjá einum besta körfuboltamanni Serba í klukkutíma. Þetta er 25 ára strákur sem spilar með Real Madrid (í körfu já :-)) og er að reyna að komast í try-outs f. NBA. Hann er með bandarískan þjálfara að aðstoða sig, en sá hinn sami er einnig yfirþjálfari 5star æfingabúða sem eru hér á sama tíma og við. Það var mjög áhugavert að horfa á þessa einkaæfingu, en þessi strákur æfir einn í amk 2 tíma á hverjum degi er sagt.

Síðan fór að hellirigna í gær og ekki var hægt að hafa seinni æfinguna úti. Þar sem 5star búðirnar taka alveg íþróttahöllina, þurftum við að æfa í stórum fundarsal, þar sem stelpurnar voru látnar skokka, teygja og gera allskonar styrktaræfingar...

Í gærkvöldi var svo horft á all-star leik 5star búðanna til gamans. Við höfum ekki fengið spil á kvöldin eins og lagt var upp með vegna þessara búða, en það breytist vonandi á morgun þegar þeir krakkar fara heim.

Eftir hádegismat í dag fórum við svo með skíðalyftu upp á eitt hæsta fjall Serbíu í rúmlega 2000m hæð, skoðuðum útsýnið og svo aftur niður. Fullt af stelpum sigruðust þar með á sjálfri sér þar sem þær voru lofthræddar en skelltu sér samt. - Sjá myndir

Eftir seinni æfinguna í dag spiluðum við svo æfingaleik við lið frá Belgrad og stóðu stelpurnar sig ótrúlega vel. Ég hef ekki séð þær spila svona vel og eftir að þjálfarinn hafði komið og kíkt á leikinn í smá tíma hrósaði hann þeim í hástert. Það hefur verið mikið lagt upp úr hreyfingu án bolta, fría sig og fá sendingar og að gefa góðar sendingar og þetta virðist allt vera að skila sér vel hjá stelpunum.

Og jú...það eru hælsæri og smámeiðsl í hrönnumWhistling, aðeins illt hér og þar, smá hálsbólgur og hausverkir, en í það heila þá eru þær hressar og kátar og þegar þær venjast þessu öllu saman minnkar þetta smám saman.

Nú eru stelpurnar í mat og svo í kvöld er aftur "bíó"............Wink


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Anna Björk Bjarnadóttir

Höfundur

Anna Björk Bjarnadóttir
Anna Björk Bjarnadóttir
Fjolnisstelpur i Serbiu
Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Mæðgur
  • ...erbia_2_028
  • Horft yfir til Kosovo
  • Á einu hæsta fjalli Serbíu (2017m)
  • ...erbia_2_051

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband